Uppreisnarmenn í Líbíu hafa náð völdum aftur í borginni Ajdabiya sem er í austurhluta landsins. Flugbannið yfir Líbíu hefur takmarkað mjög möguleika hers Gaddafi í að beita sér gegn uppreisnarmönnum.
Ajdabiya hefur mikla þýðingu fyrir stríðandi öfl í Líbíu, en þar mikil olíuframleiðsla. Um 100 þúsund manns búa í borginni.
Hermenn Gaddafi hafa skilið eftir sig skriðdreka og önnur vopn þegar þeir flúðu frá borginni. Ráðherra í ríkisstjórn landsins segir að hermenn hafi neyðst til að fara frá borginni vegna loftárása Vesturlanda.
Uppreisnarmenn náði Ajdabiya á sitt vald um miðjan febrúar. Hermenn Gaddafi tóku borgina í síðustu viku, en hafa nú tapað henni aftur.
Harðir bardagar eru um borgina Misrata, en þar hefur verið barist alla vikuna.