Robert Gates varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Hillary Clinton utanríkisráðherra segja að þau hefðu fengið skilaboð frá nánum samstarfsmönnum Muammar Gaddafi, leiðtoga Líbíu, um að hann kunni að vera tilbúinn til að fara frá völdum.
Þetta kemur fram í Los Angels Times í dag. Blaðið hefur eftir ónafngreindum embættismanni í Bandaríkjum að vísbendingar séu komnar fram um bresti í ríkisstjórn landsins og Gaddafi kunni að fara frá völdum innan skamms tíma.
„Við höfum margar ábendingar um að fólk sem starfar með Gaddafi sé að leita leiða til komast burt,“ sagði Clinton í viðtali á NBC. „Við höfum sent skilaboð til þessa fólks: Vilji þið í raun og vera enda sem úrhrök? Vilji þið eiga það á hættu að vera dregin fyrir Alþjóða glæpadómstólinn? Nú er tíminn til að komast í burt og hjálpa til við mótun nýrrar stefnu.“
Gates sagði í viðtali á CBS að líbíski herinn sé að komast í stöðu sem hann gæti ekki unnið. Óeining sé innan fjölskyldu Gaddafi. Mönnum hafi verið bent á útgönguleið jafnframt því sem alþjóðlegum þrýstingi sé viðhaldið. „Það er ekki útilokað að ríkisstjórnin sjálf springi,“ sagði Gates.