Starfsmenn kjarnorkuversins í Fukushima í Japan neyddust til að yfirgefa verið eftir að geislun frá ofni 2 mældist 10 milljón sinnum meiri en við venjulegar aðstæður.
Geislavirkt joð í sjó við kjarnorkuverið mælist nú 1.850 sinnum meira en við eðlilegar aðstæður. Kjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur varað við því að það geti tekið mánuði að ná tökum á ástandinu við Fukushima.
Gagnrýni á hvernig staðið er að málum við Fukushima hefur verið að aukast. Gagnrýnt er fyrir skort á upplýsingum um ástandið. Kjarnorkumálastofnun Japans segir að mörg mistök hafi verið gerð eftir að kjarnorkuverið skemmdist, m.a. hafi starfsmenn sem reyna að ná tökum á ástandinu ekki verið í réttum hlífðarklæðnaði. Kjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna (IAEA) hefur sent hóp sérfræðinga til Japans.
Starfsmenn kjarnorkuversins hafa lagt sig í hættu við að reyna að tryggja kælingu á kjarnakljúfum versins. Í vikunni voru þrír starfsmenn fluttir á sjúkrahús með alvarleg brunasár, en þeir urðu fyrir geislun sem er 10 þúsund sinnum meiri en við venjulegar aðstæður. Fullyrt er að þeir hafi ekki verið í nægilega góðum hlífðarklæðnaði og það sé ástæðan fyrir ástandi þeirra.