Andstæðingar Gaddafi hafa sótt fram í bæjum í austurhluta Líbíu í dag og í gær og tekið hvern bæinn á fætur öðrum. Nató náði í dag samkomulagi um bandalagið taki að sér að framfylgja flugbanni. Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Nató, segir að samningar um þetta taki strax gildi.
Uppreisnarmenn tóku í gær olíuborgina Ajdabiya og hafa í dag náð völdum í bæjunum Ras Lanuf, Brega, Uqayla og Bin Jawad og stefna nú til Sirte sem er heimaborg Gaddafi.
Árangur uppreisnarmanna má að miklu leyti þakka loftbanni sem Vesturlönd settu á Líbíu í síðustu viku. Flugvélar alþjóðaherliðsins hafa gert loftárásir á flugvelli og fleiri skotmörk í Líbíu og lamað flugher landsins og stöðvað birgðaflutninga.
Sprengingar hafa verið í Trípólí, höfuðborg Líbíu, í dag. Þá voru gerðar loftárásir á Sirte í kvöld.
Boðað hefur verið til fundar í London í næstu viku þar sem rætt verður um framhald aðgerða í Líbíu.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hvatt Gaddafi í að láta af völdum. Hann hafi tækifæri til þess núna.