„Mest ákærður í öllum heiminum“

Silvio Berlusconi
Silvio Berlusconi Reuters

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, bar vitni í dómssal í Mílanó í morgun vegna ásakana um fjármálamisferli og misnotkun valds í þágu fjölmiðlafyrirtækis hans Mediatrade.

Vitnisburðurinn er liður í því að ákveða hvort Berlusconi muni koma fyrir rétt og svara fyrir þær sakir sem á hann hafa verið bornar.

„Þessar ásakanir eru fáránlegar og órökstuddar,“sagði Berlusconi í símaviðtali við ítölsku sjónvarpsstöðina Stöð 5, sem er í hans eigu.

 „Ég er mest ákærði einstaklingur sögunnar og í öllum heiminum,“ bætti hann við. „Það er til fólk sem reynir að nota lagabókstafinn til að hafa áhrif á hugmyndafræði fólks. Það heldur að dómarar geti eyðilagt óvin sinn sem hefur notið velgengni í stjórnmálum og nýtur hylli,“ sagði Berlusconi.

Hann veifaði glaðlega til fjölmiðlamanna er hann kom til réttarsalarins.

Berlusconi hefur áður borið vitni fyrir dómi, það var árið 2003 er hann þurfti að svara spurningum um meinta mútuþægni.

Vitnaleiðslurnar í dag fóru fram fyrir luktum dyrum.

Berlusconi mun koma fyrir rétt 6. apríl, þar sem hann þarf að svara fyrir ásakanir um að hafa átt í kynferðislegu sambandi við stúlku undir lögaldri og að hafa reynt að nota stöðu sína til að hylma yfir það.

Hann neitar öllum þeim sökum sem á hann eru bornar og hefur til áhersluauka svarið við líf barna sinna og barnabarna. Hann segir að um samsæri vinstri afla sé að ræða.

Stuðningsmenn Berlusconis söfnuðust saman fyrir framan dómshúsið í Mílanó í morgun og hrópuðu hvatningaróp til hans.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert