Óviðunandi mistök

Ríkisstjórn Japans hefur gagnrýnt stjórnendur Fukushima Daiichi kjarnorkuversins harðlega fyrir að hafa gefið rangar upplýsingar varðandi geislavirkni. Stjórnvöld segja mistökin algjörlega óviðunandi.

Rafmagnsveita Tókýó (TEPCO) greindi frá því um helgina að geislavirkni væri 10 milljón sinnum hærri en eðlilegt gæti talist. Fyrirtækið leiðrétti sig síðar og sagði hún væri 100.000 hærri en ekki 10 milljón sinnum hærri, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá.

Starfsmenn kjarnorkuversins hafa unnið að því hörðum höndum að stöðva leka geislavirkra efna frá kjarnorkuverinu. Það skemmdist mikið í jarðskjálftanum fyrir hálfum mánuði og flóðbylgjunni sem fylgdi á eftir.

Stjórnvöld í Japan hafa aflétt flóðbylgjuviðvörun sem var gefin út í kjölfar annars jarðskjálfta sem varð norðaustur af landinu kl. 22:23 í gærkvöldi að íslenskum tíma (kl. 7:23 á mánudagsmorgni að japönskum tíma). Skjálftinn mældist 6,5 stig. Ekki hafa borist neinar fréttir um eyðileggingu eða manntjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert