Styrkja bandalag gegn Gaddafi

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði á símafundi með leiðtogum Bandaríkjanna, Frakklands og Þýskalands í kvöld, að á fundi í Lundúnum á morgun muni bandalag þjóða, sem vilja framfylgja ályktun SÞ um flugbann í Líbíu, vonandi breikka.

„Forsætisráðherrann hélt myndsímafund með Barack Obama, Nicolas Sarkozy og Angelu Merkel þar sem rætt var um Miðausturlönd," sagði talsmaður Camerons. Sagði talsmaðurinn, að Cameron hefði á fundinum lýst þeirri von, að á fundinum á morgun muni bandalag ríkjanna, sem framfylgir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, styrkjast og breikka.

Yfir 35 ríki munu senda fulltrúa sína á ráðstefnuna á morgun þar sem fjallað verður um framtíð Líbíu þar sem Múammar Gaddafi, einræðisherra, á undir högg að sækja eftir loftárásir bandalagsríkjanna á eldflaugavarnarstöðvar og hergögn. Hafa uppreisnarmenn í landinu sótt í átt að höfuðborginni Tripoli á síðustu dögum.  

Cameron sagði, að á fundinum yrði einnig rætt um nauðsynlega mannúðaraðstoð við líbísku þjóðina og hvernig Líbíumenn geti best mótað eigin framtíð.

Leiðtogarnir fjórir ræddu einnig um umbótaferlið í Egyptalandi og nauðsyn þess að koma friðarferlinu í Miðausturlöndum af stað á ný.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka