Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að hernaðaraðgerðir bandamanna í Líbíu muni halda áfram þar til Múammar Gaddafi, leiðtogi landsins, verði við kröfum Sameinuðu þjóðanna, þ.e. hætti árásum á landsmenn og leyfi hjálpargögnum að berast inn í landið.
Clinton lét ummælin falla á alþjóðlegri ráðstefnu sem fer nú fram í London, en þar er fjallað um framtíð Líbíu. Hún hvetur þjóðir til að standa saman í því að beita Gaddafi pólitískum þrýstingi og koma honum þannig frá völdum. Hann hefur stýrt landinu undanfarna fjóra áratugi.
Clinton segir að hernaðaraðgerðir muni halda áfram þar til Gaddafi verði við þeim skilyrðum sem hafi verið sett í samþykkt öryggisráðs SÞ. Hann láti af árásum á óbreytta borgara, dragi herlið sitt til baka frá svæðum þar sem herinn hefur beitt valdi til að ná yfirráðum á og gefi leyfi fyrir því að mikilvæg þjónusta og hjálpargögn fái að berast til Líbíu.
Hún segir ennfremur að alþjóðasamfélagið verði að gera meira heldur en að beita aðeins hernaðaraðgerðum í landinu. „Við verðum öll að halda áfram að þrýsta á og auka einangrun stjórnar Gaddafis,“ sagði Clinton í London í dag.