„Höfum stöðvað Gaddafi“

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, segir að herir Gaddafis hafi verið stöðvaðir. Hann segir að ef ýtt væri á að stjórnarskipti yrðu nú í landinu, myndi það veikja samstöðu bandamanna.

„Við réðumst á loftvarnir Gaddafis og þannig komum við á loftferðabanni. Við skutum á skriðdreka og önnur hernaðargögn, sem höfðu verið notuð til að halda þorpum og borgum í gíslingu,“ sagði Obama í ræðu í herskólanum í Washington, sem hann hélt í gærkvöldi að staðartíma.

„Núna get ég staðfest að við höfum stöðvað Gaddafi,“ sagði Obama.

„Hefðum við skorast undan ábyrgð gagnvart meðbræðrum okkar, sem bjuggu við þessar aðstæður, þá hefðum við verið að svíkja okkur sjálf. Sumar þjóðir virðast geta horft framhjá grimmdarverkum. En Bandaríkin eru ekki þannig. Sem forseti, þá hafna ég því að bíða eftir að sjá myndir af slátrun og fjöldagröfum áður en ég blanda mér í málin.“

Margir hafa  gagnrýnt Obama fyrir þátttöku Bandaríkjanna í aðgerðunum í Líbíu; sumir segja ekki nógu langt gengið, en aðrir segja að Bandaríkin hefðu ekkert átt að skipta sér af þessu.

Obama sagði að heimurinn væri betri staður ef Gaddafi væri ekki lengur við völd, en það væri á ábyrgð líbísku þjóðarinnar að ákveða eigin örlög. „Ef við myndum reyna að steypa Gaddafi af stóli með valdi, þá myndi samstaða bandamanna riðlast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert