Útsendarar bandarísku leynisþjónustunnar, CIA og hinnar bresku MI6 eru að störfum í Líbíu. Þar safna þeir upplýsingum sem gagnast við loftárásir og koma á samskiptum við uppreisnarmenn sem berjast gegn Gaddafi. Frá þessu greindi New York Times í dag og vitnaði í ónafngreinda heimildarmenn.
Talsmaður Hvíta hússins, Jay Carney, neitaði að tjá sig um frétt blaðsins og benti á að skv. venju myndi bandaríkjastjórn ekki tjá sig um störf leynisþjónustunnar.
Auk starfsmanna CIA eru tugir breskra sérsveitarmanna og starfsmanna bresku leynisþjónustunnar MI6 nú í Líbíu, samkvæmt heimildarmönnum New York Times en þeirra á meðal eru núverandi og fyrrverandi embættismenn frá Bretlandi.
ABC fréttastofan greindi frá því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefði veitt CIA leyfi til að aðstoða við hernaðinn í Líbíu.
Obama hefur sagt að hann muni ekki senda herlið inn í Líbíu en hann hefur ekki útilokað vopnasendingar til uppreisnarmanna.