Moussa Koussa, utanríkisráðherra Líbíu, er flúinn frá heimalandi sínu en hann lenti á Farnborough herflugvellinum á Englandi í kvöld. Þangað kom hann frá Túnis. Er þetta talið mikið áfall fyrir Muammar Gaddafi, leiðtoga Líbíu.
Breska utanríkisráðuneytið staðfesti í kvöld, að Koussa væri kominn til Bretlands og hefði sagt þarlendum stjórnvöldum að hann hefði sagt af sér embætti í heimalandi sínu. Hann hafi ekki lengur viljað vera fulltrúi líbískra stjórnvalda á alþjóðavettvangi.
Stjórnvöld í Líbíu vildu í kvöld ekki viðurkenna að Koussa hefði flúið og sögðu að hann væri í Lundúnum í erindum líbískra stjórnvalda.
En háttsettur bandarískur embætismaður sagði, að flótti Koussa væri afar mikilvægur og sýndi, að liðsmenn Gaddafis sæju nú sína sæng upp reidda.