Japönsk yfirvöld segja að íbúar sem búa í nágrenni Fukushima Daiichi kjarnorkuversins muni ekki snúa til síns heima á næstunni. Tugþúsundir voru fluttar brott og hafast fjölmargir við í neyðarskýlum, sem voru sett upp til bráðabirgða.
Rúmlega 70.000 manns, sem búa innan 20 km radíuss frá verinu, hafa verið flutt á brott og búa nú í neyðarskýlum. Þá hafa yfirvöld hvatt 136.000 íbúa, sem búa um 20 til 30 km frá verinu, til að halda sig innandyra ellegar fara.
Yukio Edano, talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar, segir að brottfluttningur fólks frá hættusvæðinu sé langtímaaðgerð.
Naoto Kan, forsætisráðherra Japans, sagði í sjónvarpsávarpi að hann væri reiðubúinn til að kljást við verið til langs tíma, en hann sagði að Japan myndi hafa betur í þeirri baráttu.
„Við getum ekki sagt að jafnvægi hafi komist á í kjarnorkuverinu á þessu stigi málsins. Við erum hins vegar búin undir mismunandi aðstæður og ég er sannfærður um að hægt verði að koma á jafnvægi í verinu,“ sagði hann.
„Ég get ekkert sagt til um það hvenær það verður, en við erum að gera okkar besta,“ sagði Kan.
Mikil geislun hefur nú mælst í fyrsta sinn í grunnvatni skammt frá kjarnorkuverinu.
Umfangsmikil leit er hafin í Japan að líkum þeirra einstaklinga sem hefur verið saknað frá því hamfarirnar dundu yfir þann 11. mars sl. Endanlega tala yfir látna liggur enn ekki fyrir. Staðfest er að 11.500 eru látnir en um 16.500 er saknað.