Harðir bardagar hafa geisað í dag á Fílabeinsströndinni. Að sögn Alþjóða Rauða krossins féllu a.m.k. 800 í bardögum í borginni Duekoue, sem er í vesturhluta landsins.
Starfsmenn Rauða krossins, sem heimsóttu Duekoue í dag og í gær, segja að 800 hið minnsta hafi látist í átökum í borginni sl. þriðjudag.
Þeir segja að það leiki enginn vafi á því að meiriháttar átök hafi átt sér stað í borginni. Starfsmenn Rauða krossins segjast hafa séð fjölmörg lík og vinna nú þeir að því að safna upplýsingum á vettvangi.
Þá hafa átök staðið yfir í borginni Abidjan á mili stuðningsmanna Laurent Gbagbo, sem neitar að víkja úr forsetastóli, og stuðningsmanna Alassane Ouattar, sem er yfirlýstur sigurvegari forsetakosninganna sem fram fóru í nóvember.
Bandaríkin, Frakkland, Afríkusambandið og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, hafa hvatt Gbagbo til að víkja þegar í stað, en menn óttast afleiðingar stríðsátakanna á almenna borgara í landinu.