Ríkisstjórnin á ekki fyrir rafmagni

Ríkisstjórn Svasílands getur ekki greitt rafmagnsreikning hins opinbera, sem nemur jafnvirði tveggja milljóna Bandaríkjadollara.

Þetta kemur fram í dagblaðinu Times of Swaziland í dag.

Þar segir að þetta gæti leitt til þess að rafmagnsveitan, sem er ríkisrekin, gæti tekið rafmagnið af nokkrum ráðuneytum.

Barnabas Dlamini, forsætisráðherra Svasílands, segir að finnist ekki lausn á efnahagsvanda landsins fljótlega, verði „ekki til neinir peningar til að gera nokkurn hlut“.

Ríkisstjórnin hefur fengið lán hjá eigin seðlabanka til að geta haldið uppi starfsemi. Svaslendingar þurfa að sannfæra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, AGS, um að breytingar hafi verið gerðar, að öðrum kosti fær landið ekki lán frá sjóðnum.

Meðal breytinga sem AGS fór fram á var  að laun opinberra starfsmanna yrðu lækkuð.

Ráðherrar landsins hafa þegar skert eigin laun um 10% og eru að íhuga að skila aftur veglegum aukagreiðslum sem þeir veittu sjálfum sér í fyrra.

Fyrirhuguðum launalækkunum opinberra starfsmanna í landinu hefur verið mætt með mikilli andstöðu. Samtök kennara segja að ríkisstjórnin verði að segja af sér áður en kennarar séu tilbúnir til að íhuga launalækkun. Þeir segja efnahagsástandið vera ríkisstjórninni að kenna.

Boðað er til mótmæla í landinu 12. apríl.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert