Gat rifnaði á þotuþak á flugi

Hvellur hvað við er gat opnaðist á búk þotunnar.
Hvellur hvað við er gat opnaðist á búk þotunnar. Reuters

Meterslangt gat myndaðist á búk Boeing 737-þotu bandaríska flugfélagsins Southwest Airlines skömmu eftir flugtak frá Phoenix í Arizonaríki í Bandaríkjunum í gær. Flugmennirnir snarlækkuðu flugið og nauðlentu á herflugvelli svo engan sakaði um borð.

Um borð í þotunni voru 118 farþegar auk áhafnar. Þá sakaði ekki en ein flugfreyjanna slasaðist lítillega.

Flugvélin var á leið frá Phoenix til Sacramento í Kaliforníu er atvikið átti sér stað, um 40 mínútum eftir flugtak. Fór loftþrýstingur samstundis af farþegaklefanum og súrefnisgrímur féllu niður svo farþegar köfnuðu ekki af súrefnisskorti. 

Hvellur hvað við er þakið rifnaði. „Maður sá beran himininn,“ sagði kona sem var farþegi í þotunni við fréttastofuna AP.  Óljóst er hvað því olli en talsmaður bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) segir að svo virðist sem um viðhaldsmál sé að ræða og ekki leiki grunur á að um skemmdarverk hafi verið að ræða.

Um leið og rifan myndaðist fór loftþrýstingurinn af stjórn- og faregaklefanum. Flugmennirnir steyptu þotunni í  skyndingu í átt til jarðar vegna þrýstingstapsins og lentu þotunni heilu og höldnu skömmu síðar á flugvelli flugdeildar bandaríska flotans í Yuma-herstöðinni, um 300 km vestur af Phoenix.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert