Að minnsta kosti 12 létust þegar herflugvél bandamanna skaut á flutningalest uppreisnarmanna sem ók á milli borganna Brega og Ajdabiya í Líbíu í gærkvöldi.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir læknum í Ajdabiya að þrír læknanemar hafi verið á meðal þeirra sem létust.
Herþotan gerði árás á uppreisnarmennina eftir að nokkrir þeirra skutu upp í loftið úr loftvarnarbyssu, að því er fréttir herma.
Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins segir að vegurinn á milli Brega og Ajdabiya sé þakin skotförum eftir herþotuna. Hann segir að við veginn megi sjá rústir fjögurra pallbifreiða og sjúkrabíls. Einnig grafir þeirra sem létust.
Talið er að árásin hafi átt sér stað um kl. 23 að staðartíma. Nánari upplýsingar um atburðinn liggja ekki fyrir, en talið er að uppreisnarmennirnir hafi skotið úr loftvarnabyssunni til að fagna.
Þá réðist herþotan til atlögu og lagði fimm ökutæki í rúst.