Southwest Airlines hefur kyrrsett 80 flugvélar í kjölfar atviks sem átti sér stað í gær, en þá nauðlenti farþegaflugvél félagsins á herflugvelli í Arizona eftir að gat kom á þak vélarinnar. Opinber gögn sýna að sprungur hafi fundist á vélinni fyrir um ári en að gert hafi verið við þær.
Enginn slasaðist alvarlega í gær, en 118 voru um borð í vélinni þegar loftþrýstingur féll skyndilega í henni og varð flugstjórinn að lækka flugið skyndilega. Farþegunum brá og um stund greip um sig örvænting.
Flugstjóranum tókst að lenda örugglega á herflugvellinum sem er skammt frá Yuma, sem er suðvestur af Phoenix þaðan sem vélin tókst á loft.
Málið er nú til rannsóknar og hefur Southwest kyrrsett 80 svipaðar vélar vegna málsins, en umrædd vél er af gerðinni Boeing 737-300.