Enn barist í Líbíu

Reuters

Bardagar hafa aftur brotist út í Líbíu þar sem uppreisnarmenn reyna nú að halda völdum í borginni Brega. AFP fréttstofan segir að þeir hafi náð háskólanum í borginni á sitt vald.

Hersveitir Múammars Gaddafis Líbíuleiðtoga skutu á Misrata, sem er þriðja stærsta borg landsins og síðasta stóra vígi uppreisnarmanna í vesturhluta landsins. Að minnsta kosti einn hefur látið lífið og nokkrir hafa særst. 

Brega er um 800 km austur af höfuðborginni Trípólí. Þar hafa harðir bardagar geisað undanfarna daga eftir að hersveitir Gaddafis sneru aftur til borgarinnar eftir að hafa þurft að hörfa.

Uppreisnarmennirnir sögðust hafa náð borginni á sitt vald í gær, en leyniskyttur Gaddafis eru á svæðinu.

Uppreisnarmennirnir héldu sókn sinni áfram í dag og hafa náð háskólasvæðinu á sitt vald.

Þá hefur verið greint frá því að a.m.k. 13 létust þegar herflugvél Vesturveldanna skaut á bílalest uppreisnarmanna sem ók á milli Breta og Ajdabiya á föstudag.

Leiðtogar uppreisnarmannanna segja að það hafi mögulega leitt til árásarinnar að nokkrir uppreisnarmenn hafi skotið upp í loftið. Það hafi þeir ekki átt að gera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert