14 ára gömul stúlka hefur verið handtekin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sökuð um hórdóm. Stúlkan var þvinguð til að ganga í gegnum „meydómspróf" að sögn þarlendra fjölmiðla.
Dagblaðið Gulf News segir frá því að lögregla í hinu íhaldssama furstadæmi Ajman hafi handtekið unglinginn eftir að hún átti stefnumót við kærasta sinn á húsþaki fjölskyldunnar. Hún var í kjölfarið þvinguð til að gangast í gegnum leggangaskoðun sem "staðfesti að hún væri enn hrein mey" hefur dagblaðið eftir föður stúlkunnar.
„Lögreglan hefur lagt framtíð dóttur minnar í rúst, því hún er búin að missa af prófunum í skólanum. Hún hefur verið í varðhaldi síðan 22. mars," segir faðirinn, sem neitað var um að greiða tryggingu til að fá dóttur sína lausa. Hann segir að þegar lögreglan hafi kallað hann ásamt dóttur sinni á lögreglustöðina hafi hann ekki getað ímyndað sér hvað beið þeirra. „Mér var sagt að einhver hefði kvartað undan dóttur minni vegna þess að hún hefði hitt fullorðinn mann á húsþaki. Ég sagði lögreglunni að ég myndi leysa málið sjálfur innan fjölskyldunnar."
Stúlkan var hinsvegar handtekin og stefnt fyrir hórdóm. „Lögreglan kom mér í opna skjöldu þegar þeir sögðu að hún gæti farið í fangelsi og að ég yrði að fara heim án dóttur minnar. Ég skil ekki tilganginn í því að rústa lífi og orðspori stelpunnar minnar," er haft eftir föðurnum.