Krefjast milljarða niðurskurðar

Barack Obama forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna. Reuters

Forystumenn Repúblikana á Bandaríkjaþingi segja að það stefni í alger óefni með skuldir Bandaríkjanna og krefjast þess að skorið verði niður um milljarða dollara í ríkisútgjöldum. Náist ekki samkomulag fyrir vikulok gæti starfsemi stofnana alríkisins stöðvast.

Paul Ryan, formaður fjárlaganefndar fulltrúadeildarinnar hefur lagt fram tillögur sem hann kallar Leiðin til velmegunar, en í þeim er m.a. lagt til að skorið verði niður í heilbrigðismálum sem myndi einkum bitna á öldruðum og fátæku fólki. Hann segir að Bandaríkin sé á leið í skuldakreppu sem muni hafa mjög neikvæð áhrif á efnahag landsins þegar til lengri tíma er litið.

Tillögur Repúblikana voru lagðar fram daginn eftir að Barack Obama tilkynnti formlega að hann ætlaði að sækjast eftir endurkjöri í næstu forsetakosningum.

Harður ágreiningur er milli Demókrata og Repúblikana um fjárlögin. Demókratar fara með meirihluta í öldungadeildinni, en Repúblikanar eru með meirihluta í fulltrúadeildinni.  Flokkarnir verða því að koma sér saman um tillögur, en tími til þess rennur út á miðnætti á föstudag. Náist ekki samkomulag verða truflanir á starfsemi stofnana alríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert