Hneyksli í ástralska hernum

Birgðaskipið HMAS Success.
Birgðaskipið HMAS Success.

Enn eitt hneykslið hefur orðið innan ástralska hersins en í ljós hefur komið að ungur nýliði í hernum tók myndir af sér og 18 ára stúlku, sem einnig er nýliði í hernum, í samförum og sendi myndirnar til vina sína gegnum netið.

Stephen Smith, varnarmálaráðherra Ástralíu, sagði í morgun, að ef rétt væri frá sagt gæti hann ekki ímyndað sér meira trúnaðarbrot en það sem fólst í gerðum mannsins. 

Fólkið er við nám í ástralska herskólanum. Konan sagði við sjónvarpsstöðina Ten, að hún hefði fyrst frétt af málinu þegar skólafélagi hennar sagði henni frá því.

Konan, sem nefnd er Kate, segist hafa haft mök við skólafélaga sinn af fúsum og frjálsum vilja en hún hafi ekki vitað að pilturinn hafði komið fyrir netmyndavélum í herberginu og sex vinir hans horfðu á útsendinguna í nálægu herbergi.

Einnig voru teknar ljósmyndir og þeim var dreift í skólanum. 

„Það var eins og veröldin hefði hrunið," sagði stúlkan sem segist hafa orðið fyrir miklu áfalli þegar hún var kölluð á fund í skólanum þar sem málið var rætt. „Þegar þeir lásu yfirlýsingarnar sem strákarnir voru látnir gefa kastaði ég upp."  

Sjónvarpsstöðin sagði, að skólinn hefði ekki boðið stúlkunni neina sálfræðiaðstoð. Þess í stað hefðu skólastjórnendurnir sagt stúlkunni í gær, að hún yrði að halda ræðu á skólafundi og biðjast þar afsökunar á því að hafa auðmýkt skólafélaga sína með því að ræða við fjölmiðla.  

Ræðunni var hins vegar aflýst á síðustu stundu. 

Lögreglan í Ástralíu rannsakar nú málið og embættismenn hafa sagt, að reynist einhver hafa brotið lög verði þeir reknir úr hernum.  

Ástralski herinn hefur fengið það orð á sig, að þar sé áfengi notað óspart og konur sæti gjarnan áreitni af ýmsu tagi. Þetta kom m.a. fram í 400 síðna skýrslu um atvik sem urðu um borð í birgðaskipinu HMAS Success árið 2009.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert