Portúgal biður ESB um aðstoð

Portúgalska ríkisstjórnin hefur ákveðið að óska eftir fjárhagslegri aðstoð frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), að því er José Sócrates, fráfarandi forsætisráðherra, greindi frá í sjónvarpsávarpi nú síðdegis.

Portúgal er þriðja ríki Evrópusambandsins til að óska eftir aðstoð, en áður höfðu Grikkland og Írland sótt um og fengið aðstoð frá sambandinu.

Embættismenn í Brussel hafa staðfest að beiðni um aðstoð hafi borist frá Portúgal. Sócrates hefur mánuðum saman staðist þrýsting markaða og annarra Evrópulanda um að leita aðstoðar. Hann skýrði ákvörðun sína með því að nauðsynlegt væri að leita aðstoðar eftir að portúgalska þingið hafnaði niðurskurðaráætlun hans.

Sócrates sagði að höfnun þingsins hafi veikt mjög fjárhagslega stöðu landsins. „Ég er sannfærður um að hún verður enn verri ef ekkert er gert,“sagði Sócrates. Hann sagði af sér embætti 23. mars. Kosningar verða í Portúgal 5. júní.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn lýsti því yfir í kvöld að sjóðurinn væri tilbúinn til að aðstoða Portúgal.

José Sócrates fráfarandi forsætisráðherra í Portúgal.
José Sócrates fráfarandi forsætisráðherra í Portúgal. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert