Yfirvöld í Suður-Kóreu vilja taka upp viðræður á ný við Norður-Kóreu um mögulega hættu sem stafar af eldfjallinu Mount Paekdu. Hafa sérfræðingar frá Suður-Kóreu lagt til fund með kollegum sínum í norðri í landamærabænum Munsa í Norður-Kóreu í næstu viku.
Mikil spenna hefur ríkt undanfarið í samskiptum þjóðanna en báðar hafa þær viðurkennt nauðsyn þess að vinna saman að rannsóknum hvað varðar mögulega hættu sem stafar af eldfjallinu.
Fjallið, sem gaus síðast 1903, er heilagt í augum beggja þjóða en ýmislegt bendir til þess að það sé enn virkt og er það mat sérfræðinga að gos í Mount Paekdu gæti lækkað meðalhita í Norðaustur Asíu í allt að tvo mánuði, sem myndi hafa skelfilegar afleiðingar á landbúnað á svæðinu.