Ákveðið var að fella niður kennslu í yfir 130 grunn- og leikskólum í Gyeonggi héraði nálægt Seoul í Suður-Kóreu í dag, eftir að byrjaði að rigna þar í morgun, af ótta við að regnið gæti verið geislavirkt.
Talsmaður skólayfirvalda í héraðinu sagði að lokun skólanna væri fyrirbyggjandi aðgerð en margir foreldrar og nemendur hefðu lýst áhyggjum af því að rigningin innihéldi mögulega geislavirk efni frá hinu laskaða kjarnorkuveri í Fukushima.
Tilmælunum var sérstaklega beint til skóla í sveitum, þar sem nemendurnir gætu þurft að ganga langa leið undir beru lofti og aðrir skólar í nágrenninu, þar sem kennsla átti að fara fram, voru hvattir til að leggja niður alla kennslu og tómstundir sem fara fram utandyra.