Stöðvun vofir yfir bandaríska ríkiskerfinu

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og leiðtogar Bandaríkjaþings hafa síðustu daga setið á löngum fundum til að reyna að ná samkomulagi um fjárlög næsta árs. Það myndi hafa mikil áhrif á daglegan rekstur ríkisins þegar á föstudag náist samkomulagið ekki.

Obama ræddi við blaðamenn í Hvíta húsinu í gærkvöldi eftir að hafa setið á eins og hálfs klukkutíma löngum fundi með John Boehner, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings  og  Harry Reid, leiðtoga demókrata í öldungadeildinni.

Sagði Obama, að hann væri viss um að niðurstaða fengist í tæka tíð til að koma í veg fyrir að bandaríska ríkiskerfið stöðvist á miðnætti á föstudag.

Ekki er hægt að greiða bandarískum ríkisstarfsmönnum laun án þess að fyrir liggi fjárheimildir frá Bandaríkjaþingi. Embættismenn áætla, að um  800 þúsund ríkisstarfsmenn yrðu að leggja niður vinnu náist samkomulagið ekki í tæka tíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert