Herstjórnendur NATO neituðu í dag, að biðjast afsökunar á loftárás, sem gerð var í gær á skriðdreka, sem uppreisnarmenn í Líbíu notuðu. Sagðist talsmaður NATO að ekki hafi verið vitað, að uppreisnarmenn réðu yfir slíkum hergögnum.
„Ég biðst ekki afsökunar," sagði Russell Harding, hershöfðingi á blaðamannafundi í stjórnstöð NATO í Napolí í dag.
„Staðan á jörðu niðri breytist hratt. Þar til í gær höfðum við engar upplýsingar um að þjóðarráðið eða uppreisnarmenn notuðu skriðdreka," sagði Harding og vísaði þar til Þjóðarráðs uppreisnarmanna.
Uppreisnarmenn segja, að fimm að minnsta kosti hafi látið lífið þegar orrustuflugvélar NATO gerðu árás á skriðdrekaflokk nálægt olíuborginni Brega.
„Okkar hlutverk er að vernda óbreytta borgara. Skriðdrekar hafa verið notaðir til að ráðast á almenning," sagði Harding á blaðamannafundinum.