Spánn hefur horfið frá því að vera aðeins „einn dómínókubbur í röðinni" til þess að verða „óbrjótanleg stífla sem verndar evrusvæðið", vegna efnahagslegra umbóta, að sögn spænsku ríkisstjórnarinnar.
„Allir segja að Spánn hafi fylgt eftir þeim umbótum sem nauðsyn var á og það sé það sem geri stöðuna öðru vísi" en á Portúgal, sagði innanríkisráðherrann Alfredo Perez Rubalcaba á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í dag. „Við erum farin frá því að vera bara einn dómínókubbur í röðinni yfir í að verða stífla, óbrjótanleg stífla, sem verndar evrusvæðið og þetta er niðurstaðan af þeim aðgerðum sem við höfum ráðist í."
Aðeins 2 dagar eru liðnir síðan Portúgal óskaði eftir fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu og funduðu fjármálaráðherrar evrusvæðisins í kjölfarið í Ungverjalandi, þar sem settur var saman margra milljarða björgunarpakki gegn hörðum kröfum um umbætur í hagstjórn Portúgals. Portúgal er þriðja evrulandið, eftir Grikklandi og Írlandi, sem þarf á aðstoð að halda og hafa áhyggjuraddir verið á lofti um að Spánn stefni hraðbyri í sömu átt.
Spænska hagkerfið er það fjórða stærsta á evrusvæðinu og kæmi til fjárhagsaðstoðar þar þyrfti björgunarpakkinn að vera stærri en lánin til Grikklands, Írlands og Portúgals samanlögð. Það gæti ógnað framtíð alls evrusvæðisins. Spænska ríkisstjórnin er hinsvegar harðákveðin í því að svo verði ekki.