Svíar tóku upphaflega ekki þátt í átökunum í Líbíu en hafa nú sent átta Gripen-herþotur á vettvang. Tvær þeirra hafa þegar verið sendar í stutt eftirlitsflug, að sögn Dagens Nyheter en ekki er vitað hvort þær voru látnar ráðast á skotmörk herja Muammars Gaddafis, leiðtoga landsins.
Svíþjóð á ekki aðild að Atlantshafsbandalaginu sem fer með yfirstjórn aðgerðanna, flugmennirnir hlíta því fyrirmælum NATO en þeir hafa bækistöð á Ítalíu. Þar hafa einnig dönsku þoturnar bækistöð en norsku þoturnar eru á grísku eynni Krít.
Að sögn Aftenposten var ætlunin að sænsku flugmennirnir færu í æfingaflug þegar á miðvikudag. En það fórst fyrir vegna þess að í ljós kom að Jas Gripen-þoturnar gátu ekki notað eldsneytið sem var til taks á Sigonella-herflugvellinum á Sikiley. Gripenþotur nota hefðbundið eldsneyti sem er ódýrara en sérhannaða bensínið sem bandarísk-smíðaðar F-16 orrustuþotur þurfa.