Leiðangur á tind Everestfjalls, sem kenndur er við bresku verslunarkeðjuna Iceland, lenti í vanda um helgina þegar flutningabíll, sem flutti útbúnað leiðangursins, valt niður í gil í Nepal.
Iceland Everest leiðangurinn er undir stjórn ævintýramannsins Davids Hempleman-Adams en Malcolm Walker, forstjóri Iceland, og Richard sonur hans eru meðal leiðangursmanna. Tilgangur leiðangursins er að safna 1 milljón punda til rannsókna á heilasjúkdómum.
Fjallgöngumennirnir hafa að undanförnu dvalið í Nepal til að búa sig undir gönguna á Everest en voru á leið inn í Tibet þegar slysið varð. Tveir ökumenn slösuðust alvarlega og stór hluti af búnaði leiðangursins er ónýtur.
Breskir fjölmiðlar hafa eftir Walker, að leiðangursmenn þurfi nú að útvega sér nýjan búnað og vistir og fá það sent í grunnbúðirnar á Evrerest.
Hempleman-Adams hefur áður gengið á Everest og farið upp suðurhlíðina en ætlar nú að ganga upp norðurhlið. Hann stefnir að því að komast á tind Everest en Walker-feðgar ætla ekki alla leið upp.