Mitt Romney, fyrrverandi ríkisstjóri í Massachusetts í Bandaríkjunum, tilkynnti í dag að hann sé formlega að kanna grundvöll fyrir forsetaframboði á næsta ári, þegar Barack Obama þarf að berjast fyrir endurkjöri.
Sagði Romney að stefna Obama hefði ekki dugað til að lífga við efnahagslíf Bandaríkjanna. ,,Nú er kominn tími til að við gerum Ameríku aftur mikilfenglega, með hagvexti, góðum störfum og aga í fjárlagagerð í Washington," sagði hann á myndbandi sem tekið var upp í New Hampshire, þar sem snemmbúin staðbundin keppni um tilnefningu fór fram.
Romney bauð sig fram til forseta árið 2008, en hafði ekki árangur sem erfiði, enda efuðust harðir íhaldsmenn um að hann deildi sömu gildum og þeir. Þótti hann hafa verið nokkuð frjálslyndur og hófsamur í stjórnunarstíl sínum sem ríkisstjóri, enda er Massachusetts mikið frjálslyndisríki.
Bæði fjölmiðlafulltrúar í Hvíta húsinu og andstæðingar Romneys úr röðum samflokksmanna hans benda tíðum á að umbætur á heilbrigðiskerfi Massachusetts, sem Romney lagði blessun sína yfir, hafi verið innblástur fyrir umbætur Obamas á velferðarkerfi Bandaríkjanna. Harðir repúblikanar fyrirlíta einmitt þær umbætur.
Þá er trú Romneys einnig talin verða honum fjötur um fót, en hann er mormóni. Margir strangtrúaðir, kristnir samflokksmenn hans líta á mormónatrúna sem villutrú.
Ferli Romneys má lýsa þannig í stuttu máli að hann naut velgengni í heimi viðskiptanna fyrst um sinn, en fór fyrst út í stjórnmál árið 1994 þegar hann tapaði fyrir Ted Kennedy í kjöri um öldungadeildarþingsæti Massachusetts.
Fimm árum síðar, árið 1999, var hann fenginn til þess að bjarga rekstri vetrarólympíuleikanna í Salt Lake City, sem höfðu áður orðið vettvangur margra hneykslismála hvað varðar skipulagningu og fjármögnun. Það verkefni fórst honum vel úr hendi og tókst honum að breyta þeirri velgengni yfir í árangur í stjórnmálum þegar hann vann ríkisstjórakosningar í Massachusetts árið 2002.
Aðrir repúblikanar sem farnir eru að kanna hljómgrunninn fyrir forsetaframboði eru Tim Pawlenty, fyrrverandi ríkisstjóri Minnesota, Michele Bachmann sem þykir erkiíhald, Newt Gingrich fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Jon Huntsman sendiherra Bandaríkjanna í Kína, auðkýfingurinn Donald Trump og ríkisstjóri Mississippi, Haley Barbour.