Frakkar íhuga nú að feta í fótspor Svía, Norðmanna og Íslendinga og gera vændiskaup ólögleg í landinu. Samkvæmt lögunum myndi hver sá sem kaupir hvers kyns kynlífsþjónustu eiga yfir höfði sér fangelsisdóm og sekt.
Þverpólitísk nefnd franskra þingmanna hefur lagt til að fara þessa leið en Svíar voru fyrstir þjóðar til að banna vændiskaup árið 1999. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu í dag.
Danielle Bousquet úr flokki sósíalista og Guy Geoffroy úr hægri flokki Nicolasar Sarkozys forseta segja að vændiskaupendur verði að gera sér grein fyrir að gjörðir þeirra ýttu undir þrældóm og mansal eins og 80% þeirra 20.000 einstaklinga sem fastir eru í viðjum kynlífsiðnaðarins í Frakklandi.
Félagsmálaráðherrann, Roselyne Bachelot, er fylgjandi lagabreytingunni og sagði hún þingmannanefndinni: „Það er ekkert slíkt til sem heitir vændi af fúsum og frjálsum vilja. Sala á kynferðislegum athöfunum þýðir að líkamar kvenna standa karlmönnum til boða óháð vilja þessara kvenna.“