Utanríkisráðherrar NATO ríkja eru nú saman komnir í Berlín til að ræða til hvaða aðgerða eigi að grípa varðandi átökin í Líbíu.
Djúp gjá hefur myndast á milli þeirra ríkja sem vilja láta uppreisnarmönnum vopn í té og þeirra sem vilja ekki styðja beinar hernaðaraðgerðir þeirra.
Frakkar og Bretar hafa sammælst um að auka þrýsting á að Gaddafi láti af völdum með því að auka á herstyrk sinn í Líbíu.
Þetta ákváðu forsætisráðherrar landanna, Nicolas Sarkozy og David Cameron, í morgun.
Á fundi í borginni Doha í Katar í gær var ákveðið að aðstoða uppreisnarmenn fjárhagslega.
Það var álit fundarins að Gaddafi hefði tapað löglegu valdi sínu, hann ætti þegar í stað að fara frá völdum og gefa líbísku þjóðinni svigrúm til að ákveða eigin framtíð.
Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, segir að annað hvort verði að gera líbísku þjóðinni kleift að verja sig gegn Gaddafi eða að öðrum kosti að hætta afskiptum af ástandinu í landinu.
Belgar hafa látið í ljós andstöðu við að láta uppreisnarmenn fá vopn og Þjóðverjar leggja áherslu á að lausnin geti ekki verið hernaðarleg.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hún fordæmir árasir herja Gaddafis á almenna borgara.
Af 28 NATO þjóðum hafa sex þjóðir tekið þátt í loftárásum. Frakkar og Bretar hafa séð um helming allra árásanna.
Mahmud Jibril, sem er fulltrúi utanríkismála í þjóðarráði uppreisnarmanna er væntanlegur til Washington, þar sem hann mun funda með fulltrúum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og leiðtogum þingsins.
Í yfirlýsingu sem send var eftir fundinn í Doha í gær, segir að ákveðið hafi verið að setja upp tímabundna fjárhagsaðstoð fyrir þjóðarráðið. Engar upphæðir voru gefnar upp í þessu sambandi.
Mahmud Shammam, talsmaður uppreisnarmannanna, segir að fénu verði ekki öllu varið til vopnakaupa, það verði einnig notað til að uppfylla grunnþarfir líbísku þjóðarinnar.