Lögreglan í Moskvu hefur uppgötvað það sem hún hefur kallað neðanjarðarborg þar sem ólöglegir innflytjendur frá Mið-Asíu hafa hafst við í sprengjuvarnarbyrgi frá Sovéttímanum í vesturhluta borgarinnar.
Það var lögreglan og innflytjendayfirvöld sem uppgötvuðu neðanjarðarborgina en um 110 manns höfðust þar við. Var neðanjarðarbyrgið varið með fjögurra metra háum steinsteyptum veggjum og gaddavír.
„Rýmið var útbúið með baðherbergjum, svefnherbergjum og jafnvel bænaherbergjum,“ sagði talsmaður innanríkisráðuneytis Rússlands.
Svipuð neðanjarðarborg fannst í febrúar undir Kievsky járnbrautarstöðinni í höfuðborginni. Var fólkið sem þar dvaldi einnig ólöglegir innflytjendur.