Japanskir jarðeðlisfræðingar segja, að búast megi við öðrum öflugum jarðskjálfta við norðausturströnd Honshu-eyjar þar sem jarðskjálftinn mikli, sem mældist 9 stig, varð 11. mars.
Stöðugir eftirskjálftar hafa verið á svæðinu frá því stóri skjálftinn reið yfir og hefur einn mælst 7,7 stig og tveir mælst 7,1 stig. En jarðskjálftafræðingar segja, að reikna megi með allt að 8 stiga jarðskjálfta á næstunni.
Prófessor við háskólann í Tókýó segir, að 8 stiga jarðskjálfti gæti valdið annarri flóðbylgju, líkri þeirri sem olli gríðarlegu manntjóni og eignatjóni eftir fyrsta skjálftann.
Japanska ríkisstjórnin áætlar að tjón vegna jarðskjálftans þann 11. mars nemi um 300 milljörðum Bandaríkjadollara. Aldrei áður hafa náttúruhamfarir valdið viðlíka tjóni.