Bandarísk kona sem reyndi að fyrirfara sér á meðan hún var ólétt með þeim afleiðingum að barn hennar lést er ákærð fyrir að hafa myrt barnið. Hefur málið vakið mikið umtal í Bandaríkjunum og blandast inn í þær hatrömmu deilur sem ríkt hafa um fóstureyðingar í landinu.
Bei Bei Shuai, 34 ára gamall veitingahúsaeigandi sem flutti frá Kína til Bandaríkjanna fyrir tíu árum, var þunguð og hafði ætlað sér að giftast kærasta sínum þar til hún uppgötvaði seint á síðasta ári að hann væri þegar giftur og hygðist yfirgefa hana.
Nokkrum dögum síðar, þann 23. desember, fór hún í byggingarvöruverslun og keypti rottueitur sem hún innbyrti í íbúð sinni í Indianapolis. Hún lést þó ekki af því og náðu vinir hennar að koma henni undir læknishendur.
Fékk hún meðferð gegn áhrifum eitursins og fæddi barn sitt á gamlárskvöld. Hins vegar lést dóttir hennar, Angel, fjórum dögum síður eftir að hafa fengið flogaköst. Breska blaðið
Shuai fékk þá annað taugaáfall og dvaldi í mánuð á geðdeild en eftir það var hún útskrifuð og fékk að búa hjá vinum á meðan hún reyndi að byggja líf sitt upp að nýju.
Í mars var hún hins vegar handtekin og ákærð fyrir morð og tilraun til fóstursdráps. Hún á nú yfir höfði sér lífstíðarfangelsisvist. Segja lögfræðingar hennar ákvörðunina um að ákæra hana yfirgengilega. Hún hafi fengið fjölda lyfja á sjúkrahúsinu og þau hafi hæglega geta verið ástæðan fyrir láti barnsins.
Stórt skref í átt að því að gera fóstureyðingar ólöglegar
„Þetta mál hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir þungaðar konur, ekki aðeins í Indiana heldur um allt land,“ segir Alexa Kolbi-Molinas, lögfræðingur hjá bandarískum mannréttindasamtökum.
„Ef við leyfum ríkinu að setja konur í fangelsi fyrir hvað sem getur ógnað lífi ófæddra barna þeirra, þá myndi ekkert stöðva lögregluna í að fangelsa konur sem fá sér áfengi eða reykja. Hvar á þá að draga línuna?“
Kolbi-Molanis sagði að slíkum málum hefði fjölgað ógnvænlega mikið um öll Bandaríkin. Mannréttindafrömuðir hafa tengt það við þrýsting sem hópar sem eru andsnúnir fóstureyðingum beita saksóknara.
Katherine Jack, lögfræðingur hjá réttindasamtökum þungaðra kvenna í Bandaríkjunum, hefur komið að miklum fjölda mála af þessu tagi. „Ákærum af þessum toga hefur fjölgað í Bandaríkjunum og eru afleiðing orðræðu andstæðinga fóstureyðinga sem reyna að gefa fóstrum réttindin sem ná lengra en réttinda mæðra. Ef málinu verður leyft að standa mun það ekki gera fóstureyðingar ólöglegar samstundis en það væri hins vegar stórt skerf í átt að því,“ segir hún.
Dave Rimstidt, einn af saksóknurunum sem sækja málið, segir að málið gegn Shuai hafi verið vel ígrundað.
„Þetta er mjög sérstætt mál. Allar ákvarðanir um ákærur eru erfiðar og fara í gegnum ferli þar sem við tökum allar staðreyndir og kringumstæður með í reikninginn og í þessu tilfelli held ég að við höfum ákært fyrir þau tvo brot sem við getum sannað,“ sagði hann.
Utah, Alabama, Mississippi, Iowa og Suður-Karólína eru meðal þeirra ríkja sem hafa ákært í málum þungaðra kvenna og fóstra þeirra og hafa þau flest tengst því að konurnar hafi tekið ólögleg lyf á meðan að meðgöngu stóð.