Brenndi kirkju eftir að Obama vann

Barack Obama, Bandaríkjaforseti.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti. Reuters

Hvítur maður hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir að kveikja í kirkju í nóvember 2008 til að mótmæla kjöri Baracks Obama, Bandaríkjaforseta. Kirkjuna brenndi hann aðeins fáeinum klukkustundum eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir, en flest sóknarfólk kirkjunnar var dökkt á hörund.

Kirkjan var staðsett í bænum Springfield í Massachusetts-ríki Bandaríkjanna, um 90 kílómetrum frá Boston og brann til kaldra kola. Nokkrir slökkviliðsmenn slösuðust þegar þeir reyndu að ráða niðurlögum eldsins.

Saksóknarinn í málinu sagði að hinn 26 ára gamli Michael Jacques og tveir hvítir hefðu verið knúnir áfram af kynþáttahatri þegar þeir helltu bensíni yfir kirkjuna og kveiktu í henni. Þeir hafi viljað fordæma kosningu Obama.

Jacques var dæmdur í fangelsi til sextíu ára fyrir mannréttindabrot, skemmdir á eigum trúfélags vegna kynþáttar og fyrir að kveikja í eigum trúfélags. Hinir tveir, Benjamin Haskell og Thomas Gleason, höfðu áður játað á sig sambærileg brot. Haskell var dæmdur í nóvember í fangelsi til níu ára og Gleason verður dæmdur í október. Sá síðarnefndi bar vitni fyrir saksóknara í málinu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert