Enn er mikill ágreiningur innan NATO um umfang hernaðaraðgerða í Líbíu, en nú funda utanríkisráðherrar sambandsins í Berlín.
William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagðist vona að aðrar þjóðir myndu auka herstyrk sinn í Líbíu og vonaði að fundurinn myndi leiða til þess.
Í grein eftir þá David Cameron, forsætisráðherra Bretlands,
Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands og Barack Obama Bandaríkjaforseta, sem birtist í dag í London Times, The Washington Post og Le
Figaro, segir að það sé óhugsandi að sá sem hefur reynt að myrða sína eigin þjóð geti tekið þátt í framtíðar stjórn þess lands.
Á sama tíma sýndi líbíska ríkissjónvarpið myndir af vígreifum Gaddafi, þar sem honum var ekið um götur Trípólí í opnum bíl. Gaddafi var með sólgleraugu og veiðihatt á höfði og virkaði glaðbeittur, þar sem hann veifaði til stuðningsmanna sinna sem hrópuðu "Guð, Líbía og enginn annar."