Fulltrúar stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Japan hafa kallað eftir því að Naoto Kan, forsætisráðherra landsins, segi af sér. Nokkurs konar pólitískt vopnahlé hefur verið við lýði í landinu frá því að jarðskjálftinn mikli reið yfir landið þann 11. mars en því virðist nú lokið.
„Ég held að það sé tími til kominn fyrir forsætisráðherranna að íhuga að segja af sér. Það væri afar óheppilegt fyrir japönsku þjóðina að halda áfram undir forystu hans,“ sagði Sadakazu Tanigaki, forseti frjálslynda lýðræðisflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins.
Friður virtist hafa komist á í stjórnmálalífinu eftir hamfarirnar í síðasta mánuði en það hafði áður einkennst af miklum deilum. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir jarðskjálftann sást forsætisráðherrann í faðmlögum við leiðtoga stjórnarandstöðunnar sem lýstu fljótlega yfir fullum stuðningi við björgunarstarf ríkisstjórnarinnar.
Þrýstingurinn á Kan hefur hins vegar aukist í kjölfarið vegna aðgerða stjórnar hans eftir hamfarirnar. Sérstaklega hefur meint getuleysi hennar í að koma ástandinu í Fukushima-kjarnorkuverinu í lag verið gangrýnt.
Þá hefur töluvert verið gagnrýnt að ráðherrann skuli raða í kringum sig nýráðnum aðstoðarmönnum og ráðgjöfum og setja þannig embættismenn til hliðar og valda þannig ruglingi í ríkisstjórn sem þegar hafi nóg á sinni könnu eftir hörmungarnar.
Í gær skipaði ríkisstjórnin raforkufyrirtækinu sem á kjarnorkuverið í Fukushima að byrja að greiða fórnarlömbum kjarnorkuslyssins þar miskabætur að jafnvirði 1,2 milljóna króna.