Bandaríkin aðhlátursefni heimsins

Donald Trump hyggur á forsetaframboð.
Donald Trump hyggur á forsetaframboð. AP

Bandaríkin eru aðhlátursefni heimsins vegna þess að þau þora ekki að beita mætti sínum af ákveðni á alþjóðavettvangi. Þetta segir milljarðamæringurinn Donald Trump sem talinn er huga að forsetaframboði á næsta ári.

„Við höfum svo mikil völd ef við vissum hvernig ætti að beita þeim,“ sagði Trump í viðtali við sjónvarpsstöðina CNN. Með því að reka ekki ákveðna utanríkisstefnu væru Bandaríkin orðin að aðhlátursefni um allan heim.

Nefndi Trump sem dæmi málatilbúnað Bandaríkjanna í Líbíu.

„Sjáið Líbíu. Sjáið þið þetta klúður. Við förum þangað inn, við förum ekki þangað inn, það ætti ekki að fjarlægja hann [Muammar Gaddafi], við viljum ekki fjarlægja hann, við viljum ekki snerta á honum en það ætti að fjarlægja hann. Enginn veit hvað hann er að gera með Gaddafi,“ sagði hann.

Trump sem er 64 ára gamall hefur enn ekki tilkynnt um að hann ætli sér í framboð til forseta en hann hefur gerst meira áberandi undanfarnar vikur með viðtölum og farið mikinn í gagnrýni á Barack Obama forseta.

„Ég myndi gera eitt. Annað hvort færi ég inn og tæki olíuna eða ég færi alls ekki inn. Í gamla daga, þegar þú ferð í stríð og vinnur þá er sú þjóð þín,“ sagði Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert