Mæður með ung börn fái aukaatkvæði

Viktor Orba, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orba, forsætisráðherra Ungverjalands. SEBASTIEN PIRLET

Ríkisstjórn Ungverjalands íhugar nú að veita mæðrum með ung börn aukaatkvæði í kosningum. Hinn íhaldssami Fidesz-flokkur forsætisráðherra landsins, Viktors Orbans, hefur áður lagt fram umdeild fjölmiðlalög og er við það að samþykkja nýja stjórnarskrá sem talin er ógna réttindum minnihlutahópa.

„Um 20% samfélagsins eru börn. Þetta er töluvert stór hópur sem er skilinn út undan. Hagsmunir þessara framtíðarkynslóða eiga sér ekki málsvara við ákvarðanatökur,“ segir József Szájer, embættismaður flokksins. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu í dag.

„Við vitum að þetta gæti í fyrstu virst undarleg hugmynd en á sjötta áratugnum var það óvenjulegt að gefa svörtum atkvæðarétt og fyrir hundrað árum var óvenjulegt að gefa konu atkvæðarétt.“

Upphaflega stóð til að ákvæði þessa efnis færi inn í nýja stjórnarskrá sem búist er við að verði samþykkt á morgun. Hins vegar eftir að skoðanakannanir bentu til þess að almenningur væri klofinn í afstöðu sinni til hugmyndarinnar af ótta við að það þýddi að barnmargar Rómafólk fengi fleiri atkvæði var ákveðið að reyna að koma henni í lög.

Hugmyndir eru því uppi um að takmarka aukaatkvæði mæðranna við eitt barn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert