Ísraelsk yfirvöld hafa handtekið tvo Palestínumenn sem grunaðir eru um hrottalegt morð á fimm manna fjölskyldu í landnemabyggðinni Itamar í síðasta mánuði.
Að sögn háttsetts yfirmanns í ísraelska hernum er ekki talið að morðin hafi verið fyrirskipuð af herskáum hópum Palestínumanna heldur hafi þau verið afleiðing innbrots sem fór úrskeiðis.
„Persónulega held ég að ætlun þeirra hafi verið að brjótast inn í landnemabyggðina og kannski stela byssu. Ekki hafi verið lagt á ráðin um morðin fyrirfram, heldur var það bara eitthvað sem gerðist,“ sagði Nimrod Aloni herforingi fjölmiðlamönnum.
„Ég held að þeir hafi verið þar að eigin frumkvæði án nokkurra fyrirskipana. Mitt mat er að þeir hafi unnið sjálfstætt.“
Tilkynningin um handtöku mannanna tveggja eru fyrstu fréttir um rannsókn morðsins á fjölskyldunni sem staðið hefur yfir í yfir mánuð.