Umskipti í finnskum stjórnmálum

Fólk á kjörstað í Kokkola í dag.
Fólk á kjörstað í Kokkola í dag. Reuters

Samkvæmt fyrstu tölum, sem birtar voru í Finnlandi klukkan 17 þegar kjörstöðum í þingkosningum var lokað, hefur Þjóðarbandalagið fengið 20,2% af þeim atkvæðum sem talin hafa verið. Jafnaðarmannaflokkurinn er með 19,5% og Sannir Finnar 18,6%.

Miðflokkurinn, sem fékk flest atkvæði í kosningunum fyrir fjórum árum og hefur því haft forsætisráðherraembættið, er nú í fjórða sæti með 17,3% atkvæða. Flokkurinn hefur setið í stjórn með Þjóðarbandalaginu og tveimur minni flokkum, Græningjum og Sænska þjóðarflokknum.  

Þetta eru mikil umskipti frá síðustu kosningum því Sannir Finnar fengu í síðustu kosningum 4,1% atkvæða og 5 þingmenn. Flokkurinn er á móti evrunni, villl ekki lána Evrópusambandslöndum í fjárhagsvanda og vill að Finnar segi upp aðild sinni að ýmsum samþykktum Evrópusambandsins, til að mynda um losun gróðurhúsalofttegunda. Þá vilja Sannir Finnar herða innflytjendalöggjöf. 

Gangi þessi úrslit eftir er líklegt, að Jyrki Katainen, núverandi fjármálaráðherra og leiðtogi Þjóðarbandalagsins, myndi næstu ríkisstjórn Finnlands. 

Búið er að telja rúmlega 32% atkvæða, einkum utankjörfundaratkvæði. Mari Kiviniemi, forsætisráðherra og leiðtogi Miðflokksins, var að vonum vonsvikin og sagði við finnska ríkissjónvarpið, Yle, að allt útlit væri fyrir að flokkurinn myndi bíða ósigur.

Jutta Urpilainen, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, sagðist hins vegar vera ánægð með tölurnar en sagði ljóst, að talningin yrði spennandi. Hún sagði hins vegar ljóst, að Timo Soini, leiðtogi Sannra Finna, væri sigurvegari kosninganna.

Timo Soini, formaður Sannra Finna, kemur á kjörstað í Espoo …
Timo Soini, formaður Sannra Finna, kemur á kjörstað í Espoo í dag ásamt konu sinni, Tiinu. Reuters.
Jyrki Katainen, fjármálaráðherra og leiðtogi Þjóðarbandalagsins, bíður eftir að fá …
Jyrki Katainen, fjármálaráðherra og leiðtogi Þjóðarbandalagsins, bíður eftir að fá kjörseðil í hendur. Hann verður líklega næsti forsætisráðherra Finnlands. Reuters
Mari Kiviniemi, forsætisráðherra og leiðtogi Miðflokksins, gaf kjósendum í Helsinki …
Mari Kiviniemi, forsætisráðherra og leiðtogi Miðflokksins, gaf kjósendum í Helsinki túlípana í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert