Mögulegt er að morð á kínverskri stúlku í Kanada hafi náðst á vefmyndavél í tölvu hennar á meðan hún var að tala við vin sinn heima í Kína.
Árásarmaður stúlkunnar sem var 23 ára gömul og stundaði háskólanám í Kanada sást glíma við hana fyrir framan myndavélina um eitt um nótt að staðartíma. Fann lögregla lík hennar nokkrum klukkustundum síðar.
Vitnið sem statt var í Beijing sagði lögreglu að bankað hafi verið á hurðina. Sterkvaxinn maður á þrítugsaldri með brúnt hár hafi komið inn og beðið um að fá að nota farsíma stúlkunnar.
Skyndilega brutust út átök. Vitnið sá hluta af þeim en þau bárust hins vegar að hluta til út fyrir sjónsvið myndavélarinnar. Maðurinn slökkti svo á fartölvunni sem nú er týnd.
Fram kom í kanadíska ríkisfjölmiðlinum CBC að móðir stúlkunnar hafi sett sig í samband við skrifstofu kínverska konsúlsins í Toronto sem hafi gert yfirvöldum í borginni viðvart.
Að sögn lögreglu voru engin merki um mikla áverka á líkinu sem gætu gefið vísbendingu um dánarorsök stúlkunnar. Þá væru engin augljós merki um að hún hafi verið misnotuð kynferðislega. Engu að síður var hún ber að neðan þegar hún fannst. Krufning á að fara fram síðar í vikunni.