Barack Obama Bandaríkjaforseti og kona hans, Michelle, höfðu samanlagt 1,7 milljónir dollara í tekjur á síðasta ári, eða jafnvirði 193 milljóna króna. Hríðlækka hjónin í tekjum frá árinu 2009, er þau höluðu inn 5,5 milljónum dollara, einkum vegna sölu á bókum eftir Obama.
Þetta kemur fram í bókhaldsgögnum sem gerð voru opinber í Hvíta húsinu í dag. Sjálf launin sem Bandaríkjaforseti hefur eru ekki „nema“ 395 þúsund dollarar, eða um 45 milljónir króna á ári.
Um er að ræða þrjár bækur; The Audacity of Hope, Dreams From My Father og Of Thee I Sing: A Letter to My Daughters. Síðasttalda bókin er barnabók og kom út á síðasta ári. Hefur Obama lýst því yfir að allur hagnaður þeirrar bókar, eftir skatt, muni renna í sjóð sem styrktar börnum hermanna sem hafa látist eða særst í störfum sínum.
Áform hafa verið uppi í Bandaríkjunum um að hækka skatta á hátekjufólk og hefur Obama lýst því yfir að hann sé tilbúinn til þess sjálfur, til að gefa gott fordæmi. Á síðasta ári greiddu forsetahjónin meira en 500 þúsund dollara í skatta, eða nærri 57 milljónir króna.
Talsmaður Hvíta hússins upplýsti að hjónin hefðu gefið 245 þúsund dollara til 36 ólíkra góðgerðarmála á síðasta ári, eða um 14% af þeirra tekjum.