Barack Obama lýsti í ræðu sinni í dag yfir nauðsyn þess að lækka skuldir bandaríska ríkisins, sem nema litlum 1,4 billjónum dollara. Yfirlýsingin kemur degi eftir að Standard & Poor's breytti langtímahorfum ríkisins úr stöðugum í neikvæðar.
Sagði Obama ef ekki tækist að minnka skuldirnar, á sama tíma og efnahagslífið væri að rétta úr kútnum, þá myndi það hafa alvarlegar afleiðingar. Demókratar og repúblikanar í Bandaríkjunum hafa ekki komið sér saman um leiðir til að minnka skuldirnar, og lagt fram sína hvora áætlunina til ársins 2020.
Obama sagði ennfremur að þótt niðurskurður á útgjöldum hins opinbera væri nauðsynlegur þá mætti ekki skera framlög til menntunar og rannsókna við nögl. Ítrekaði hann stefnu sína um að hinir tekjuhærri áttu að greiða hærri skatta, en repúblikanar hafa tekið illa í þær hugmyndir.