Segir að stríðið muni dragast á langinn

Líbískur uppreisnarmaður.
Líbískur uppreisnarmaður. Reuters

Utanríkisráðherra Líbíu segir að fyrirætlarnir Breta um að senda herforingja til Líbíu, í þeim tilgangi að veita uppreisnarmönnum þar ráð í baráttunni við hersveitir Múammars Gaddafis, muni draga úr líkunum á því að friður komist á í landinu.

Ráðherrann Abdul Ati al-Obeidi segir í samtali við breska ríkisútvarpið að vera bresku herforingjanna í Benghazi, sem er höfuðvígi uppreisnarmanna, muni leiða til þess að átökin í Líbíu muni dragast á langinn.

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, segir að ákvörðun breskra stjórnvalda sé í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem gangi út á það að vernda óbreytta borgara í landinu. Hún bannar jafnframt að erlend ríki sendi innrásarheri inn í Líbíu.

Breska ríkisútvarpið segir að 10 breskir herforingjar og svipaður fjöldi frá Frakklandi verði sendir til Líbíu. Herforingjunum er ætlað þjálfa uppreisnarmennina í því að afla sér upplýsinga og skipuleggja sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert