Stríð bitna á börnunum

Húsarústir í Líbíu
Húsarústir í Líbíu Reuters

Fjöldi barna hefur látið lífið í átökum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku undanfarna mánuði, að sögn Anthony Lake, formanns UNICEF. 26 börn hafa fallið í Jemen, og önnur 800 slasast.

Tuttugu börn hafa látist í Misrata-borg einni í Líbíu, en þar hafa uppreisnarmenn átt í hatrömmum átökum við hersveitir Gaddafis.

Mörg ungmennanna sem látið hafa lífið í átökum í Barein voru skólabörn. Fyrr í vikunni dó 16 ára piltur eftir að hafa orðið fyrir flugskeyti sem var skotið frá  Gaza-svæðinu yfir til Ísraels.

„UNICEF hefur miklar áhyggjur af áhrifum ofbeldis á þau börn sem stödd eru á átakasvæðum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku,“ sagði Lake í tilkynningu.

„Við fordæmum hersveitir sem beina vopnum sínum að saklausum borgurum, og hvetjum alla hlutaðeigandi til þess að hleypa mannúðarsamtökum inn á átakasvæðin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert