Breski ferðamaðurinn Helen Beard bjargaði mannslífi í dag þegar hún greip ungbarn sem hafði fallið fram af svölum á þriðju hæð hótels í Flórída. Barnið, sem er 16 mánaða gamalt, slapp ómeitt.
Beard sagði við lögregluna að hún hefði verið við hótelsundlaugina þegar hún sá barnið hanga í svölunum. Hún beið ekki boðanna og hljóp strax af stað og náði að grípa barnið.
Atvikið átti sér stað á Econo Lodge hótelinu í Orlando. Svo virðist sem að barnið hafi náð að smeygja sér í gegnum svalahandriðið.
Beard hélt á barninu þar til sjúkralið kom á vettvang. Barnið var flutt á sjúkrahús en að sögn lækna sáust engir áverkar á barninu. Þeir segja að barnið sé við hestaheilsu.
Móðir barnsins, hin tvítuga Helena Myles, sagði við lögregluna að vinkona sín hefði verið að gæta barnsins. Vinkonan sagði við lögregluna að hún hefði farið á salernið um kl. 21 að staðartíma. Stuttu seinna heyrði hún öskur og sá að svalahurðin var opin.
Hún hljóp út á svalirnar og leit niður. Þar sá hún Beard með barnið í fanginu.