Ferðamenn streyma til Lundúna

Fjölmargir ferðamenn eru væntanlegir til Lundúna gagngert í þeim tilgangi að fylgjast með brúðkaupi Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton. Margir Bretar ætla aftur á móti að fara utan á sama tíma.

Það styttist óðum í brúðkaupið, sem verður haldið föstudaginn 29. apríl nk. 

Talsmaður Eurostar lestarinnar segir að bókunum hafi fjölgað gríðarlega að undanförnu. 

„Þetta hefur reynst vera vítamínssprauta, og parið - þau Vilhjálmur og Kate - hefur mikið aðdráttarafl. Ég held því að margir vilji koma til að njóta stemningarinnar. Sjá og njóta Lundúna og kynnast arfleiðinni og sögunni. Og sjá allt sem borgin hefur upp á að bjóða,“ segir Mary Walsh, talsmaður Eurostar.

Þá hefur verið nóg að gera hjá hótelum í borginni.

Framkvæmdastjóri Rubens hótelsins, Malcom Hendry, segir í samtali við Reuters að bókanir hafi streymt inn um leið og tilkynnt var um brúðkaupið. Hann þakkar guði fyrir það að margir hafi verið á vaktinni þann dag til að afgreiða þær. Hann segir að símalínurnar hafi verið rauðglóandi.

Ferðamálastofa Bretlands býst við því að um 600.000 gestir verði í miðborginni á brúðkaupsdaginn, til viðbótar við þann mannfjölda sem alla jafna er í London. Talið er að tekjur af ferðamönnunum muni nema um 40 milljónum punda (um 7,5 milljörðum kr.)

Á sama tíma ætla margir Bretar að nýta tækifærið og fara til útlanda í frí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert