Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að senda mannlausar herflugvélar til Líbíu, sem munu aðstoða uppreisnarmenn í baráttunni við hersveitir Múammars Gaddafis Líbíuleiðtoga.
Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá þessu og sagði að þetta sé gert í samráði og með leyfi Barack Obama, forseta Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur fordæmt árásir stjórnarhermanna á óbreytta borgara, sem hún segir að séu grimmilegar. Þá segir hún fregnir af notkun hersveita Gaddafis klasasprengjum, sem beinist gegn saklausu fólki, veki hjá sér óhug.